Kæru foreldrar

Börnin ykkar eru heldur betur að ná tökum á leikskólalífinu. Nú eru öll börn komin í skólann sinn, allir foreldrafundir búnir og þið foreldrar eigið að vera upplýstir um skólastarf barnanna ykkar.
Ég sendi ykkur svo von bráðar starfsáætlunina fyrir skólaárið svo þið getið glöggvað ykkur enn betur á skólastarfinu.
Eins og ég hef alltaf sagt og held áfram að segja þá er leikskólinn fyrsta skólastigið og það mikilvægasta. jú af hverju held ég því fram að leikskólastigið sé mikilvægasta skólastigið, en það er vegna þess að börnin ykkar eru að slíta naflastrenginn frá ykkur foreldrunum og leggja af stað út í hinn stóra heim fyrir utana heimilið. Bernskan er mikilvægasta æviskeiðið þar sem grunnur er lagður til áframhaldandi náms. Börnin eru að læra að vera sjálfstæð, þau eru að taka inn málið svo þau geti tjáð sig við aðra, geti komið hugmyndum sínum á framfæri og látið skoðanir sínar í ljós. Rannsóknir hafa sýnt að ef börn eru með slakan málþroska á leikskólaárunum og þau fá ekki þá þjálfun og ná ekki þeirri færni í máltjáningu og málskilningi sem þeim er nauðsynleg þá getur það fylgt þeim alla ævi. Þess vegna viljum við leggja svo mikla áherslu á málþroska allra barnanna í leikskólanum svo þau geti notið samskipta við annað fólk og get notið þeirra verkefna og starfa sem þau óska sér í framtíðinni.
Félagsþroskinn kemur einnig sterkur inn á þessu aldursskeiði, það að læra að leika við önnur börn, fá lánað, lána, skiptast á og allt það sem því fylgir að ná góðum tökum á leiknum með vinum er mjög mikilvægur þáttur þegar litið er til framtíðar. Lífið er allskonar og mikilvægt að börnin fái strax á leikskólaárunum góðan grunn að framtíðinni.

leikskólastjóri