Í Vinaminni eru „Unit block“ einingakubbar.

Þessir kubbar eru uppbyggilegur, skemmtilegur og þroskandi efniviður fyrir börn á öllum aldri.

Karolína Pratt var kennari í Bandaríkjunum, hún var lítt hrifin af þeim kennsluaðferðum sem tíðkuðust í skólum þar. Hún taldi að skólinn ætti að aðlaga sig að þörfum barnanna en ekki að börnin aðlagi sig að þörfum skólans (1914) Í kjölfarið fór hún að hanna kubba sem hún nefndi („Einingakubba“)

Einingakubbar eru töluvert stærri en flestir trékubbar sem kaupa má í hefðbundnum leikfangaverslunum. Þeir eru gerðir úr gegnheilum hlyn sem er hægsprottinn viður og hefur þann eiginleika að viðurinn flísast ekki og er hann því endingargóður.

Kubbarnir eru frekar þungir sem gerir það að verkum að byggingar úr þeim eru stöðugar og því hægt að byggja nokkuð hátt. Það sem gerir einingakubba um fram allt sérstaða er hugmyndafræði kubbanna sjálfra. Kubbarnir eru í ákveðnum stærðfræðilegum hlutföllum og miðast allt kubbasafnið út frá grunnkubbnum. Hönnun hans er í raun mjög sérstök þar sem öll hin kubbaformin ganga á einhvern hátt upp í hann.

Grunnkubburinn er 14 cm langur eða tvisvar sinnum lengri en breidd hans er og breidd hans er tvisvar sinnum lengri en þykkt hans. Börnin geta svo verið með fólk úr tré, en oftar en ekki byggja börnin utan um sig sjálf og eru því persónurnar í leiknum.

Hafa ber í huga aldur og þroska barna og hvað það er sem kennarar geta búist við af mismunandi aldurshópum.

Börnin ganga í gegnum stigskipta þróun í kubbaleik óháð aldri, þar sem þau bæta við sig stigum í þróuninni eftir því sem þau þroskast, samanber að elstu börnin geta verið að vinna á öllum stigunum samtímis. Þetta gerist á sambærilegan hátt og myndsköpunarferli barna, þar sem þau fara af einu stigi yfir á það næsta og byrja á krotskeiði, sem þróast yfir í að gera hringi og síðan höfuðfætlur áður en teikningarnar verða flóknari.

Mikilvægt er að kennarinn þekki hvert stig fyrir sig og sýni þeim öllum sömu virðingu, því fyrstu stigin eru undirstaða frekari byggingaleiks.

„Þó það virðist sem barnið sé ekki að byggja ber að hafa hugfast að mikil vinna og undirbúningur á sér stað innra með barninu.“

Nauðsynlegt er að gera sér grein fyrir hve mikilvæg vinna yngstu barnanna er, segja má að hún sé grunnurinn að því sem koma skal og mikilvægt er að kennarinn hlúi vel að þessari fyrstu reynslu.

Stigskipt þróun í kubbaleik barna með einingakubba er á eftirfarandi hátt:

1. stig Til að byrja með halda börnin á kubbunum, bera þá um en nota þá ekki til að byggja úr þeim, taka þá jafnvel og setja aftur í hillurnar. Á þessu stigi eru mörg ung börn og þau eru rétt að byrja að kanna og rannsaka þennan efnivið sem er nýr fyrir þeim.

2. stig Á þessu stigi byrja að sjást byggingar. Börnin búa til raðir, annað hvort láréttar á gólfinu eða lóðréttar í stöflum. Við sjáum miklar endurtekningar í byggingamynstrum og mikilvægt er að gefa þessum leik barnanna gott svigrúm og hafa í huga að hér eru á ferðinni mikilvægt nám og undirstaða alls kubbaleiks einni stiga.

3. stig Börnin brúa á milli tveggja kubba með þriðja kubbnum. Byggingarnar verða flóknari eftir því sem þau eldast og prófa sig áfram á þessu stigi.

4. stig Kubbum er raðað þannig að þeir girða af ákveðið svæði. Að brúa milli tveggja kubba og girða af, eru með fyrstu tæknilegu „byggingavandamálum“ sem börnin þurfa að leysa. Þetta fer að gerast stuttu eftir að þau fara að nota kubbana reglulega.

5. stig Með aldrinum verða börnin stöðugt duglegri og hugmyndaríkari í kubbabyggingum sínum. Þau nota fleiri kubba og skapa vandaðri og betur útfærða hönnum með því að nota mynstur, samhverfu og jafnvægi.

6. stig Börnin byrja að nefna byggingarnar í hlutverkaleiknuu. Áður en þau komast á þetta stig hafa þau gjarnan nefnt byggingarnar sínar en nöfnin eru þá ekki endilega í tengslum við hlutverk bygginganna.

7. stig Kubbabyggingarnar endurskapa eða tákna raunverulegar byggingar sem börnin þekkja. Þetta verður mikil hvatning fyrir hlutverkaleik í kringum byggingarnar og leik barnanna í heild.

Þegar hlutverkaleikurinn (í byggingaleiknum ) eldri barnanna er farinn að vega þyngra og úthaldið orðið meira er gjarnan bætt við litlum teningum og verðlausu efni, má þar nefna efnisbúta, garn, teppabúta, ávala litla steina, glerperlur, skeljar, pappír og málningarlímband til að skreyta byggingarnar með og fær þá hugmyndaflug barnanna notið sín ennþá meira.

Tiltektin í lok leiksins er ekki síður mikilvæg. þá flokka börnin kubbana eftir stærð og lögun og raða þeim inn í skápinn. Eftir því sem færni barnanna eykst má gefa flóknari fyrirmæli og þyngri þrautir. Ef búið er að ganga frá megninu af kubbunum en nokkrir kubbar eru eftir á gólfinu má spyrja börnin hvað þau haldi að hvert þeirra þurfi að taka marga kubba til að klára alla á gólfinu og allir fái jafnmarga kubba . Hér er ekki verið að fara fram á rétt svar heldur hvetja þau til að hugsa og gefa þeim tækifæri til að skipta kubbunum á milli sín og giska á svar.

Kubbaleikurinn er skemmtilegt og þroskandi kennslutæki.