Hreyfing og útivera er sérhverju barni holl og nauðsynleg. Þegar börnin eru úti í ferska loftinu okkar á Íslandi verða þau hress og kát, þau fá hreyfiþörf sinni fullnægt, fá ferskt loft í lungun, roða í kinnar og glampa í augun. Hreyfing og útivera er hluti af heilbrigðum lífsstíl. Börn læra í gegnum hreyfinguna, þau læra líkamsstjórn, þau hreyfa sig frjálst og óhindrað. Börn læra á líkamann hvað þau geta boðið sjálfum sé í að klifra, hoppa, róla, renna og hlaupa. Reynslan hefur sýnt að þegar börnin taka sjálf ákvörðun um að fara út verður útiveran skemmtilegri og áhugaverðari.

Í Vinaminni fara börnin á aldrinum þriggja til sex ára í íþróttahúsið í Fellaskóla einu sinni í viku. Þar fá þau að spreyta sig á hinum ýmsu þrautum og æfingum í eina kennslustund. Þetta er mjög skemmtilegt og nærandi fyrir líkama og sál.

Hlutverk leikskóla er að efla alhliða þroska barnanna þar á meðal hreyfiþroskann. Með íþróttunum erum við að vinna markvisst að því að börnin hreyfi sig reglulega, þjálfi hina ýmsu vöðva og að þau læri slökun og öndun. Í íþróttunum gefst leikskólakennurunum tækifæri til að fylgjast með hreyfigetu barnanna og eru því betur í stakk búnir til þess að grípa inn í ef með þarf.

Elstu börnin í leikskólanum fara með starfsmönnum leikskólans í íþróttahúsið í Fellaskóla einu sinni í viku yfir vetrartímann.
Þar hitta þau jafnaldra sína úr öðrum leikskólum í hverfinu og eiga saman góðar stundir í leikjum, æfingum og þrautum.