Námskrá leikskólans Vinaminnis mótast af þeim áherslum sem lagðar eru í Aðalnámskrá leikskóla, af stefnu leikskólans og af þeim aðstæðum sem hann býr við. Hér er átt við ytri aðstæður og umhverfi leikskólans og þann faglega og persónulega bakgrunn sem mótar viðhorf leikskólakennaranna og starf.

Uppeldisstefna leikskólans byggist á kenningum
Urie Bronfenbrenner

um atferlismótun, samspil einstaklingsins við umhverfi sitt og áhrif þess á námsgetu barna.

Enn fremur hugmyndir Berit Bae
um þróun sjálfsins

út frá samskipti barna og fullorðinna
í leikskólanum

og hugmyndir Piaget um það hvernig börn tileinka sér þekkingu.

Grundvallarsjónarmið Urie Bronfenbrenner er að einstaklingurinn er afurð af gagnvirku samspili hans við umhverfi sitt. Þetta samspil framkallar ákveðið atferli hjá einstaklingnum. Grunnhugsunin er sú, að einstaklingurinn er i eðli sínu virkur og skapar því umhverfi sitt að nokkru leiti. Samtímis er umhverfið virkt og breytilegt. Þetta leiðir af sér víxlverkun og aðlögun. Eftir víðtækar rannsóknir telur hann sig hafa komist að þeirri niðurstöðu að einstaklingurinn hafi ótrúleg mikla hæfileika til að aðlaga sig að margbreytilegum og ólíkum kröfum. Þetta leiðir til þess að einstaklingurinn bregst við á ólíkan hátt í ólíku efnislegu og menningarlegu samhengi.

Þannig þurfa leikskólakennararnir að vera meðvitaðir um þarfir, þroska og vilja hvers og eins barns.

Hvernig umhverfið er skipulagt telur Bronfenbrenner að geti skipt grundvallarmáli. Barn getur sýnt neikvæða og uppreisnargjarna hegðun við ákveðnar aðstæður, en verið ljúft og gott og hvers manns hugljúfi við aðrar aðstæður. Bronfenbrenner hefur sett fram athyglisverða kenningu um hvernig hann sér ytri uppbyggingu umhverfisþátta. Í kenningu sinni setur hann fram hugmyndir um fjögur meginkerfi sem einstaklingurinn er þátttakandi í. Þessi kerfi mynda hringi sem hringast utan um hvern annan. Þannig er barnið ekki eingöngu hluti af einu umhverfi heldur fleiri kerfum sem hvert hefur áhrif á annað. Bronfenbrenner er mjög upptekinn af því innihaldi sem er í samspili einstaklingsins við umhverfi sitt, hvernig einstaklingurinn upplifir umhverfið og hvernig einstaklingurinn upplifir hlutverk sitt í hinum mismunandi kerfum.

Kerfin eru: Smákerfi, miðkerfi,fjarkerfi og heildarkerfi.

Smákerfi er það umhverfiskerfi sem er næst sérhverju barni. Smákerfi, þar sem barnið er virkur þátttakandi (einkaheimili/leikskólinn). Þetta kerfi felur í sér þrjá kjarnaþætti sem áhrif hafa á þróun einstaklingsins þ.e.a.s. aðgerð, tengsl, og hlutverk. Ekki verður gerð grein fyrir þessum þáttum hér.

Miðkerfi er þegar tvö eða fleiri smákerfi mynda tengsl. Hér er m.a. átt við samspil á milli heimilis barnsins og leikskólans. Hvernig samskiptum á milli þessara kerfa er háttað, getur haft afgerandi áhrif á þroska og líðan barnsins. Í leikskólastarfi er „Miðkerfið“ mikilvægt samstarfskerfi. Leikskólakennararnir þurfa að vita hvernig börnunum líður, út frá upplifunum foreldranna. Þeir þurfa að vita hvað skilar sér í smákerfið heima, af því sem þeir leggja inn í uppeldisstarfinu. Þannig hafa leikskólakennararnir möguleika á að komast að því hversu miklum tengslum þeir ná við viðkomandi börn sbr. hugmyndir Bronfenbrebbers um tengsl barna og leikskólakennarans og áhrif þeirra á nám barna.

Fjarkerfi: Fyrir utan barnið er kerfi sem saman stendur af aðgerðum, ákvörðunum og tengslum sem barnið er ekki virkur þátttakandi í, en geta haft mikil áhrif á þróun þess. Hér getur verið um að ræða vinnustaði foreldra, heimili starfsmanna rekstraraðila leikskólans o.s.frv. Fyrir börn á leikskólaaldri skiptir t.d. vinnuumhverfi foreldra máli. Hvernig foreldrum líður hefur að sjálfsögðu áhrif á líðan barna í viðkomandi smákerfi. Ákvarðanir rekstraraðila hvað varðar ytra skipulag leikskólastarfseminnar getur haft veruleg áhrif. Hér er m.a. um að ræða opnunartíma leikskólans, aldurskiptingu barna á deildum, starfsmannahald o.s.frv.

Heildarkerfi: Þau þrjú kerfi, sem hér hafa verið kynnt mynda kerfi sem Bronfenbrenner velur að nefna „Heildarkerfi“. Þessi þrjú kerfi eru staðsett innan ákveðinnar menningarheildar eða menningarkima. Þar ríkja ákveðin hugmyndafræðileg, -fjárhagsleg, -söguleg og stjórnmálaleg gildi. í heildarkerfinu liggja fyrir ákvarðanir um lög og reglur samfélagsins. leikskólalög, barnalög, vinnulöggjöf o.s. frv. sem meðal annars hafa áhrif á uppeldisskilyrði barna.

Hugmyndafræði Bronfenbrenners og hvernig hann setur hana fram í þessum fjórum kerfum gefur rannsóknaraðilum raunhæfa möguleika til að bera saman mismunandi menningarsamfélög. Bronfenbrenner auðveldar leikskólakennurum greiningu og endurmat á uppeldisskilyrðum barna í leikskólanum svo og að skoða áhrif „Miðkerfis“ á leikskólastarfið. Hugmyndir Bronfenbrenners um hin tvö kerfin þ.e. „Fjarkerfi“ og „Heildarkerfi“ gera leikskólakennara víðsýnni á utanaðkomandi áhrif á störf þeirra í leikskólanum.