Myndsköpun og myndmál í hinum ýmsu formum eru börnunum nauðsynleg.

Markmið starfsins er að vinna að því að börnin öðlist færni í því að nota myndmenntina til að tjá reynslu sína óþvingað án þess að gerðar séu kröfur til þess að börnin eigi að ljúka við verkefnin með ákveðnum hætti.

Samspilið milli hins fullorðna og barnanna þarf að vera á þann veg að þau finni hjá sér vellíðan og hvetjandi andrúmsloft sem örvar þau til að halda áfram með verkið og þróa það.

Lögð er áhersla á að það verkefni sem börnin eru að vinna með hverju sinni sé merkingarbært, þ.e. hafi einhverja þýðingu fyrir þau, og sé í tengslum við það þema sem börnin vinna að í leikskólanum.

Unnið er gegn því að skapandi starf sé sífellt notað til afþreyingar, til að láta tímann líða og/eða að það sé verið að vinna í þágu þess að börnin ljúki við svo og svo mörg verkefni. Lögð er áhersla á ferlið þ.e. starfið hér og nú, ekki síður en afurðina. En það skal undirstrikað að afurðin er börnunum mikilvæg. Gleði barnanna er oftast mikil þegar þau sjá afrakstur vinnu sinnar og halda á fullbúnu verki. Þá segja þau gjarnan “ég ætla að gefa mömmu þetta”. Stoltið og gleðin leynir sér sjaldan.

Hér er um að ræða að börnin njóti þess að takast á við viðfangsefnið

Þannig aukast líkurnar á að þau fái jákvætt viðhorf gagnvart listsköpunarstarfi. Við viljum skapa umhverfi sem felur í sér öryggi hjá börnunum, sem veitir þeim frjálsræði til að hugsa, velja og taka ákvarðanir. Einnig viljum við þróa eðlileg viðbrögð hjá börnunum gagnvart mistökum og reyna að byggja upp sjálfstraust þeirra.

Í skapandi starfi fer fram afar mikilvægt ferli, börnin eru að þróa samhæfingu augna og handa og hreyfinga. Börnin eru einnig að þróa vöðvajafnvægi sem seinna er notað í skrift. Sjálfsmynd þeirra er að styrkjast gagnvart eigin frumkvæði og framkvæmd og samvinnufærni eflist.

Það má segja að allir þættir leikskólastarfsins séu jafn mikilvægir fyrir þroska barnanna. Hvort sem um er að ræða, myndmál, félagsfærni, hreyfifærni, tilfinningaþroska, vitsmunaþroska o.s.frv. Allir þroskaþættir barnanna haldast í hendur og þau þurfa að fá tækifæri til að efla þá í leikskólastarfinu.