Valið er á sínum stað í starfinu í Vinaminni en það er þegar börnin velja sér viðfangsefni. Valið er kerfi sem tekur til ytra skipulags leikskólans eða hins ytri ramma leikumhverfisins.
Hinn frjálsi leikur er þungamiðja þess sem fer fram í valinu.
Hugmyndir að baki valkerfinu tengjast m.a. því að útbúa uppeldisumhverfi barnanna þannig að það örvi þau til dáða í þekkingarleit sinni og að umhverfið sé þannig útbúið að fjölbreytileiki sé í leik og verkefnavali.
Valkerfið er kerfi sem byggist á því að efla sjálfstæði barnanna og möguleika þeirra til að áveða hvað þau vilja gera og með hverjum þau vilja starfa.
Með því að börnin velja sjálf og eru hvött til að taka ábyrgð á eigin vali trúum við því að börnin verði virkari og meira skapandi og ánægðari einstaklingar en ella.
Í valkerfinu viljum við gefa börnunum tækifæri á að leika sér í litlum hópum og tryggja jafnframt að alltaf sé einn fullorðinn til staðar fyrir þau.
Það er reynsla okkar að árekstrar meðal barnanna séu minni en ella þegar börnin eru í litlum hópum og að þannig njóti þau sín betur í leik. Starfsmenn hafa betri yfirsýn yfir barnahópinn á sínu svæði, þeir sjá hvernig leikurinn fer fram og hvernig börnin taka þátt í honum auk þess sem auðveldara er að grípa inn í leikinn ef með þarf. Sjálfsprottni leikurinn á heima á hverju valsvæði og það er gert ráð fyrir honum í öllu starfi leikskólans.