Leikskólinn Vinaminni er sjálfstætt starfandi leikskóli í Asparfelli 10 – 12 í Reykjavík. Hann hóf starfsemi 14. janúar 1994. Stofnendur leikskólans voru þrír leikskólakennarar , Sólveig Einarsdóttir, Guðríður Jónsdóttir og Marit Guðnadóttir. Sex árum síðar höfðu bæði Guðríður og Marit selt sinn hlut og hefur Sólveig stýrt og rekið leikskóanum ein upp frá því

Við upphaf leikskólans voru börnin alls 47 í þremur deildum við Asparfell 10. Árið 2011 var leikskólinn stækkaður og húsnæði við Asparfell 12 tekið í notkun. Starfsaðstaðan varð öll léttari og skemmtilegri í nýju og rúmdóðu húsnæði. Leikskólabörnunum fjölgaði í 86 á fjórum deildum, starfsmönnum fjölgaði að sama skapi um rúmlega helming.

Einkunnarorð leikskólans eru: Leikurinn á vísdóm veit.
Gildi: Virðing, gleði, traust.

Í starfinu með börnunum í Vinaminni er aðaláhersla lögð á samskipti, að talað sé með virðingu við börnin og þau læri að leysa deildur á firðsaman hátt. Áhersla er lögð á að einstaklingurinn fái að njóta sín og stuðlað að því að börnin verði sjálfstæðir og skapandi einstaklingar, félagslega sterkir og með góða sjálfsmynd.

Góður leikskóli er þar sem gleði, virðing og traust ríkir, og þar sem er góður starfsandi. Við fullorðna fólkið yfirfærum gleðina og starfsandann til barnanna. Börnin eru besta fólkið en til að starfið í leikskólanum sé uppbyggilegt, fræðandi og áhugavert fyrir börnin þarf að hafa gott starfsfólk. Því er mikilvægt fyrir Vinaminni að hafa ánægt og gott starfsfólk sem gefur börnunum tækifæri til að efla sjálfsmyndina, sjálfstæði sitt og félagsfærni og teygja sig ætíð skrefinu lengra í þekkingarleit sinni.

Gott foreldrasamstarf er grundvöllur þess að börnunum líð vel í leikskólanum sínum. Fjölskyldan er mikilvægust fyrir barnið og mikið er lagt upp úr góðum samskiptum og upplýsingagjöf við foreldra í Vinaminni og að fá þá inn í skólann. Foreldramorgunverður Vinaminnis á föstudögum er t.d. gríðarlega vinsæll og góð leið til að efla foreldrasamstarfið.

Við sem störfum með börnunum í Vinaminni horfum björtum augum fram á veginn og hlökkum til að þróa starfið enn frekar með börnunum og takast á við ný verkefni jafnframt því að halda áfram á sömu braut og við höfum verðið á.