Málþroski ungra barna er mér hugleikinn, en það hefur sýnt sig að málþroski barna er á undanhaldi sem er mjög alvarlegur hlutur. Tækni fleygir fram og er það af hinu góða svo framarlega sem litlu börnin verði ekki háð því að leika í spjaldtölvum, símum og öðrum snjalltækjum.
Rannsóknir hafa sýnt að ef börn eru of lengi í snjalltæjum í einu verða þau eyrðarlaus og ekkert kemst að hjá þeim nema að fá að „horfa“ eða leika í spjaldtölvunni. Það sem gerist er auðvitað að börnin ná ákveðinni færni í að stjórna og finna leiki í spjaldtölvunni en það sem gerist líka er að öll mannleg samskipti og tengsl í gegnum íslenska málið situr á hakanum.
Íslenskan er lykillinn að íslensku samfélagi.
Sumum finnst gaman að heyra að ung börn séu að tala ensku sem er allt í lagi svo framarlega að þau hafi gott vald á íslenskunni, skilji samhengi setninga, geti sagt frá því sem í brjóstum þeirra býr og hafi góðan orðaforða. Ef svo er ekki er gott að geyma enskukennsluna til betri tíma.
Þeir sem ætla að búa á Íslandi þurfa að efla íslenskuna hjá börnunum sínum svo þeim gangi vel í lífinu. Það þarf að ræða við börnin um það sem þau eru að gera hverju sinni, hvað þau sjá og hvað þau heyra, það þarf að lesa fyrir þau daglega og sjá til þess að þau skilji söguna.
Það er gott að spyrja börnin út úr sögunni, t.d. hvert var stelpan í sögunni að fara? ef barnið getur ekki svarað þá endurtekur maður, já var stelpan að fara út í búð með mömmu sinni, hvað voru þær að kaupa….o.s.frv. ef barn skilur ekki söguna þarf að velja léttari sögu fyrst í stað og jafnvel lesa í myndirnar, ræða um þær og benda á þær um leið og lesið er. Þannig læra börnin samhengi talaðs máls með hjálp mynda. Þau tengja síðan mynd við veruleikann og læra að þekkja hluti og hugtök. Málið verður innihaldsríkt og börnin fara að njóta þess vel.
Það er ekki nóg að leikskólinn haldi uppi góðu málörvunarstarfi því í leikskólanum fá börnin að hlusta á sögu í hópi annarra barna svo tengslin og eftirtekt þeirra er á annan hátt heldur en þegar foreldri situr með einu barni heima og les fyrir það, barnið fær útskýringar og umræður við foreldri sitt um innihald sögunnar, skilur og nýtur sagnalestursins betur.
Tökum okkur tak og lesum daglega fyrir börnin, leikum og tölum við þau um málefni líðandi stundar.