Kæru foreldrar!
Börnin ykkar á Álfasteini þjóta áfram í þroska, það er svo gaman að segja ykkur frá því að það gerist á hverju ári að börnin taka mikinn þroskakipp eftir áramótin. Nú eru börnin orðin svo flínk, flest farin að ganga og mörg mjög forvitin um vini sína á deildinni, stundum forvitnast þau aðeins harkalega þar sem litlir fætur eru ennþá óöruggir og kannski svolítið valtir en oftar en ekki er vinunum klappað létt á koll. En um fram allt eru þau ótrúlega dugleg að leika sér sem skiptir mestu máli í þeirra lífi núna.
Það er yndislegt að koma inn á Álfastein og sjá þessi litlu kríli, sem fæddust fyrir rúmlega einu ári, geta setið í söngstundum og dilla sér eftir tónlist, hlusta á sögu, sum farin að byrja að segja nokkur orð og þau geta oft á tíðum látið vita hvað þau vilja. Það eru forréttindi að fá að taka þátt í lífi barnanna ykkar og við hér í Vinaminni getum lagt okkar að mörkum að þau þroskist og dafni hvert á sinn hátt og á sínum hraða til framtíðar.
Þar til næst
Sólveig