Kæru foreldrar

Börnin á Töfrasteini eru heldur betur búin að fá að finna fyrir pestarganginum sem hefur herjað á landsmenn að undanförnu.
sem betur fer eru þau að koma eitt og eitt til baka eftir jafnvel margra daga veikindi.
Eins og öllum er kunnugt um er Ingibjörg María okkar að hætta störfum núna um næstu mánaðarmót og flytja út á land, en áður en hún kveður ætlar hún að bjóða ykkur foreldrum foreldraviðtal til að þið fáið að heyra hvernig staða barnsins/barnanna ykkar er í leikskólanum.
Pernille okkar hefur tekið við deildarstjórninni á Töfrasteini, sennilega hafið þið öll eða að minnsta kosti lang flest verið með börnin ykkar á Völusteini þegar hún var deildarstjóri þar svo þið þekkið hennar kennsluaðferðir og börnin þekkja hana vel líka.
Starfið á Töfrasteini verður áfram gróskumikið og gott með börnunum ykkar. Þeim verður áfram boðið upp á val, flæði, útikennslu, samval með Völusteini, hópastarf , vísdómsstundir og margt, margt fleyra.
Nú þegar daginn tekur að lengja um eitt hænufet á dag og sólin hækkar á lofti sem því nemur, styttist í vorið og lundin léttist. Við hlökkum til að halda áfram að styðja börnin ykkar í því sem þau taka sér fyrir hendur í leikskólastarfinu og efla þau í hinu daglega starfi.
Við þökkum Ingibjörgu Maríu okkar innilega fyrir dásamleg ár í Vinaminni og óskum henni velgengni, gleði og hamingju á nýjum slóðum og í nýjum verkefnum.

Þar til næst
Sólveig
leikskólastjóri