Kæru foreldra

Á Völusteini gengur lífið eins og í sögu. Börnin una glöð og kát við leik og störf. Það er svo gaman að koma inn á Völustein það eru alltaf allir að einbeita sér að leika.
Hópavinna og stöðvavinna er í fullum gangi og börnin kunna svo sannarlega að njóta þess sem er í boði að gera. Stöðvavinnan fer þannig fram að settar eru upp stöðvar á deildinni. Á hverri stöð er eitthvað ákveðið að gera. t.d. eru einbeitingarviðfangsefni á einni stöðinni, kubbaleikur á annari, hreyfileikir á þeirri þriðju, teiknað og litað á þeirri fjórðu o.s.frv. Börnunum er skipt í litla hópa og fer einn hópur í einu á hverja leikstöð. Eftir ákveðinn tíma skipta hóparnir um stöð þannig að öll börnin eru búin að fara á allar stöðvarnar í lokin. Að sjálfsögðu er einn starfsmaður með hverjum hópi allan tímann sem aðstoðar börnin ef með þarf og hvetur þau áfram í leiknum. Þessar stundir eru mikilvægar fyrir börnin þarna eru þau að efla félagsþroskann, málþroskann og margskonar aðra hæfni. Hópavinnan er ekkert ósvipuð en þá er börnunum skipt í litla hópa og er það svo hópsins og starfsmannsins sem er með hópinn að ákveða hvað er gert. t.d. ákveður einn hópurinn að fara út í vettvangsferð, annar hópurinn fer kannski í smiðjuna að vinna þriðji hópurinn ákveður að leika í fjölskylduleiknum o.s.frv. Þess á milli er lesið, sungið, farið í gömlu góðu hópleikina, farið út að leika og margt margt annað. Það má segja að börnin fá mikið út úr leikskólagöngunni sinni á Völusteini með Pernille í broddi fylkingar.

Þar til næst
Sólveig Einarsdóttir
leikskólastjóri