Nýtt skólaár er að hefja göngu sína og erum við starfsfólk skólans mjög vel hvíld eftir gott sumarfrí og tilbúin til að takast á við starfið okkar í leikskólanum.
Við áttum mjög skemmtilegan og fróðlegan dag síðastliðinn þriðjudag þegar við fengum til okkar fyrirlesara til að hjálpa okkur að komast í gírinn fyrir veturinn.
Börnin ykkar sem eru kát og glöð núna annan daginn eftir sumarfrí. Það er ótrúlega gaman að hitta vini sína aftur og leika og leika.
Aðlögun nýju barnanna okkar byrjar á mánudaginn og við hlökkum til að taka á móti þeim með bros á vör og kærleiksrík knús, því það er aðalmálið þegar litlu krílin eru að koma í leikskólann sinn að þau öðlist öryggi og traust okkar fullorðna fólksins. Það er svo miserfitt hjá þeim að vera skilin eftir í skólanum en allt hefst þetta með þolinmæði og gleðina við völd.

„Gömlu börnin“ (þ.e. þau börn sem eru búin að vera í skólanum) okkar færast mörg á milli deilda því þau eru svo ótrúlega fljót að stækka og þau þurfa meiri og flóknari viðfangsefni til að kljást við eftir því sem þau eldast. Það er svo gott að hér í Vinaminni er aðlögun milli deilda mjög auðveld, börnin þekkja öll allan leikskólann sinn svo það er mun auðveldara að færast milli deilda heldur en ef þau væru bara inn á sinni deild og þekktu ekki annað.
Þegar börnin sem eru að kveðja leikskólann sinn og halda á næsta skólastig, þ.e. grunnskólann, fara elstu börnin að byrja í Vísdómsstundum til að undirbúa sig fyrir grunnskólagönguna eftir ár. Hópastarf og stöðvavinna, val og flæði hefst svo þegar aðlögunarferlin eru afstaðin og allir eru öruggir og sáttir.

Þar til næst
Leikskólastjóri