Kæru foreldrar

Lífið í Vinaminni er frekar venjulegt þessa dagana. Það er svo gott að börnin ykkar geta komið í leikskólann sinn á hverjum degi. Það skiptir svo miklu máli ekki síst núna þegar allir eru áhyggjufullir og óvissir hvernig lífið muni ganga á næstu vikum. Margir eru búnir að missa vinnuna sína, aðrir með Covid 19, enn aðrir í sóttkví eða jafnvel í einangrun. Við sem stundum vinnuna okkar erum öfundsverð af þeim forréttindum sem það er að vakna á morgnana og halda út í lífið til starfa okkar. Við höfum þurft að hugsa út fyrir rammann þetta ár en það gerir ekkert til, það þroskar okkur áfram og gefur okkur nýjar sýnir og víddir í lífið og tilveruna.


Börnin ykkar eru farin að vinna í jólagjafagerð fyrir ykkur foreldrana og það finnst þeim mjög gaman, mikill metnaður er lagður í hvert atriði hjá þeim enda besti pabbi og besta mamma sem eiga að fá gjöfina. Eins fer að líða að því að við förum að syngja jólalögin því það er nú miklu skemmtilegra að vera búin að læra jólalögin fyrir jól heldur en kannski löngu eftir jól.
Með þessu frábæra starfsfólki sem starfar í Vinaminni og leggur sitt af mörkum til að lífið í leikskólanum sé jákvætt og gleðiríkt er allt hægt.
Þar til næst
Sólveig Einarsdóttir
leikskólastjóri