Kæru foreldrar
Sem betur fer gengur lífið sinn vana gang í leikskólanum þrátt fyrir vágestinn Covid 19 á okkar góða landi Íslandi.
Skipulagið okkar í skólanum er alveg að skila sér og getum við haft mjög fá börn saman að leika. Að sjálfsögðu skiptum við barnahópunum þannig að vinir geta verið saman þannig að allir skemmta sér vel og eru glaðir.
Nokkrir af ykkur foreldrum hafið ákveðið að halda börnunum ykkar heima sem er alveg skiljanlegt fyrst tök eru á því.
Allir eru komnir með þurrar hendur bæði börn og fullorðnir en við látum börnin þvo sér oft og vel um hendur en þau nota ekki spritt þar sem sóttvarnarlæknir telur sápuna ekki síðri en sprittið og sprittið þurrkar húðina meira en sápan.
Starfsfólk sótthreinsar snertifleti og leikföng á öllum deildum og í öllum leikskólanum á hverjum degi svo við erum held ég bara alveg í góðum málum.
Senn kemur vorið og grundirnar gróa sem gerir lífið mun léttara og þægilegra en þungur og umhleypingasamur vetur.
Við vonum bara að þið foreldrar og börnin ykkar svo og starfsfólk skólans sleppi við veikindin svo við getum haldið starfi skólans gangandi í lengstu lög og allavega smáhjól geti snúist áfram í þjóðfélaginu okkar.
Ég enda þetta á þessum góðu orðum:
“Við erum öll almannavarnir”.
Farið vel með ykkur.
Þar til næst
Bestu kveðjur
Sólveig