Kæru foreldrar.
Það er ekki með ofsögum sagt að leikurinn er börnunum nauðsynlegur til að þroskast og læra á lífið. Þau endurspegla upplifanir sínar í leiknum og læra af hvert öðru, þau læra að hafa samskipti við hvert annað og þurfa oft að ræða saman um hvernig leikurinn á að hald árfam. Það er yndislegt að fylgjast með börnunum ykkar í leiknum og heyra hvernig þau ræða saman og taka sameiginlegar ákvarðanir um það hvað gerist næst í leiknum. Stundum þurfa þau að rökræða um hlutina ef þau eru ekki sammála og oftar en ekki komast þau að sameiginlegri niðurstöðu sem færir leiknum farsælt framhald. Að sjálfsögðu eru ekki öll börn og þá sérstaklega yngri börnin ekki alltaf komin á þann stað að ráða við aðstæðurnar í leiknum og er þá gott að fá leiðsögn góðs kennara til að finna lausnir.

Leikurinn á vísdóm veit, þýðir að með leiknum öðlast börnin vísdóm og visku sem fylgir þeim ævilangt. Bernskan er yndislegur tími og á að veita börnunum frelsi, vellíðan, áhyggjleysi og vísdóm. Þegar leikskólagöngunni lýkur eru börnin tilbúin að takast á við lífið úti í hinum stóra heimi og byrja í grunnskólanum en hafa með sér í farteskinu þá visku sem þau öðluðust í leikskólanum sínum og nota hana vonandi óspart.