Kæru foreldrar!
Á Töfrasteini gerast töfrar segjum við því þar er svo margt skemmtilegt að gera sem er töfrum líkast, enda börnin orðin eldri og geta tekist á við annarskonar viðfangsefni. Börnin sem eru á síðasta ári í leikskólanum fara í Vísdómsstundir tvo daga í viku kl. 9:00-11:30 og undirbúa sig fyrir áframhaldandi skólagöngu, þ.e. grunnskólann. Í Vísdómsstundum eru þau að ræða saman og finna sameiginlegar lausnir á því sem þau eru að fást við, þau ræða um tilfinningar, gleði, reiði, einmannaleika, sorg, leiða o.s.frv. og þau ræða hvað þau geta gert við mismunandi líðan og aðstæður.
Önnur börn á Töfrasteini fara í hópastarf einu sinni í viku þar sem þau vinna að ákveðnu þema. Börnin ákveða sjálf þemað og leikskólakennarinn leiðir þau í gegnum fræðslu og upplýsingar um efnið en unnið er út frá könnunaraðferðinni. Á miðvikudögum taka börnin þátt í vísindaflæði með börnunum á Völusteini en þá eru settar upp vísindastöðvar á báðum deildunum. Einn starfsmaður er á hverri stöð sem aðstoðar og leiðbeinir börnunum ef með þarf.
Valið er á sínum stað í starfinu og eins útiveran, en mikil áhersla er lögð á að öll börn á Töfrasteini fari út einu sinni á dag til að fá útrás fyrir hreyfiþörf sinni.
Ýmsar ferðir eru á dagskrá á haustönninni á Töfrasteini svo þið sjáið kæru foreldrar að starfið er „töfrum líkast.“
Þar til næst
Sólveig