Kæru foreldra!

Þá er vetrarstarfið í leikskólanum hafið. Börnin á Töfrasteini eru byrjuð í Vísdómsstundum og hópastarfi og byrjuð að velja sér viðfangsefni fyrir veturinn. Börnin á Völusteini eru byrjuð í hópastarfi og börnin á Dvergasteini eru byrjuð í sinni hópavinnu.

Á miðvikudögum er mikið og gott vísindastarf farið af stað milli Töfrasteins og Völusteins en þá eru börnin að rannsaka, vinna úr verðlausu efni þar sem þau skapa sín verk sjálf. Börnin eru að rannsaka og skrúfa í sundur rafmagnstæki sem virka ekki lengur, þau nota ljósaborðið og sjá eiginleika hluta breytast eftir því hvernig birtan virkar. Það verður einnig farið af stað með smíðahorn en þar geta börnin smíðað og skapað að vild. Smiðjan verður með fullt af tilrauna-og rannsóknarverkefnum á þessum dögum svo spennandi viðfangsefni verða fyrir börnin á öllum vígstöðvum.

Á Álfasteini er enn aðlögun og verður það fram eftir haustinu en að sjálfsögðu fá börnin sem eru nú þegar orðin aðlöguð starf við sitt hæfi. Þau fara út að leika, í smiðjuna að munda penslilinn og svo leika þau við vini sína inni á deildinni. Það er heilmikill lærdómur í því að þurfa að skiptast á hlutum, lána og fá lánað.