17 mars 2017
Nú hafa öll börnin á Dvergasteini náð 2 ára aldri. Elstu börnin urðu tveggja ára í október í fyrra og þau yngstu núna í mars. Á afmælisdögum búa börnin til kórónu í leikskólanum og koma með niðurskorna ávexti í skólann sem þau fá svo að bjóða vinum sínum á deildinni meðan sunginn er fyrir þau afmælissöngur og haldið er uppá áfangann.
Til gamans eru hérna fyrir neðan nokkrar myndir af börnunum með kórónurnar sínar. Því miður fundust ekki myndir af öllum en þeim verður þá bætt við ef þær komast í leitirnar.
Í dag var flæði fyrir hádegi á leikskólanum en þá mega öll börnin flæða frjálst um allan skólann og velja sér verkefni og leiksvæði. Flæðið byrjaði þá um leið og börnin voru búin að borða morgunmat með foreldrum sínum og máttu þá velja sér að fara á hvaða deild sem er. Þetta var í fyrsta skipti sem börnin á Dvergasteini taka þátt í flæði um allan skólann. Þau stóðu sig ótrúlega vel og voru hugrökk að labba inn á nýjar deildir og leika við eldri börn. Flæðið gekk mjög vel og voru börnin í góðum leik á öllum stöðum og var mikil ró en gleði yfir öllu. Börnin eru að læra fleiri og fleiri orð og samskiptin milli barnanna að verða betri og betri. Þau eru farin að vera duglegri við að leika saman og skiptast á. Flæði um skólann er sérstaklega gott fyrir börnin til að kynnast öðrum börnum og starfsfólki á leikskólanum en það ætti að auðvelda aðlögun milli deilda. Þar sem þetta gekk svona ótrúlega vel ætlum við að halda áfram að hafa flæði um leikskólann eftir foreldramorgunverðinn á föstudögum. Rétt fyrir ellefu er svo tekið saman og sungin nokkur lög fyrir ávaxtastund og undirbúning fyrir hádegið.
Nokkrar myndir af flæðinu í dag þar sem börnin eru í hinum ýmsu verkefnum og leikjum: