Kæru foreldrar

Mikið er gaman fyrir ungviðið að hafa svona mikinn snjó, það er svo gaman að fá að kynnast snjónum og læra hvernig þessi efniviður er og hvað er hægt að gera með hann. Í þessum töluðu orðum sé ég út um gluggann minn að börnin á Dvergasteini eru úti að baksa með snjóbolta, rjóð í framan og alsæl, þau sýna hvert öðru snjóboltann sinn, labba um með þá, detta, standa upp aftur og halda áfram, yndislegt.

Nú hefur covid reglum um starfsemi leikskóla verið aflétt svo í dag fyrir hádegi er flæði milli Völusteins barnanna og Töfrasteins barnanna. Þá eru settar upp leikstöðvar á báðum deildum með mismunandi viðfangsefnum og börnin geta farið á milli stöðva og deilda. þetta er skemmtilegt fyrir börnin og tilbreyting í starfinu.

Börnin á Töfrasteini ætla út í skíðabrekku eftir hádegið í dag, þau fara með snjóþoturnar sínar eða rassaþoturnar og ætla að renna sér í skíðabrekkunni. Það er mikil tilhlökkun í hópnum og þau vita líka að þau fá heitt kakó og matarkex í síðdegishressingunni úti í skíðabrekkunni. Það þarf ekki mikla tilbreytingu í lífið fyrir krílin ykkar til að andlitin ljómi og tilhlökkunin skíni úr andlitum þeirra.

Starfsfólk skólans skiptist á að fá covid eins og reyndar börnin líka, en sem betur fer eru fáir veikir í einu svo þetta tekst allt hjá okkur. Við hlökkum til þegar lífið tekur breytingum vegna covid, áhyggjur og stress fá að fjúka út um gluggann og gleðin, jákvæðnin og uppbygging starfsins í Vinaminni tekur völdin.

þar til næst

Sólveig