Kæru foreldrar
Allt gengur sinn vanagang í Vinaminni. Aðlögunin á Álfasteini er í fullum gangi eins og alltaf á þessum árstíma. Nýju börnin sem eru að byrja í leikskólanum eru mjög dugleg. Ég undra mig alltaf á því hvað þau eru í raun mjög dugleg, það er ekki nema rúmt ár síðan þessi litlu grjón fæddust og þau eru alveg til í að leika og treysta bláókunugum konum. Það er ekki smá aðlögunarhæfni sem þau búa yfir. Raunin er líka sú að þeim finnst svo gaman að leika í hópi annara barna að þau gleyma sér fljótt í leik þeim við hlið. Á öðrum deildum þ.e. Dvergasteini, Völusteini og Töfrasteini ganga hlutirnir mjög vel. Það er eitt og eitt barn sem er enn aðeins óöruggt á nýju deildinni sinni en allt er þatta að koma, tekur bara aðeins lengri tíma hjá sumum.
Börnin hafa líka getað verið mikið úti þessa daga þar sem veðrið hefur verið svo frábært. Bæði börn og fullorðnir njóta þess að vera úti í blíðunni, ýmisst að leika í garðinum eða fara í vettvangsferðir og kanna náttúruna í nágrenninu.
Grunnskólabörnin sem komu til okkar aftur eftir sumarfrí eru alvag að fara að byrja í skólanum svo það styttist tíminn sem þau eiga eftir að vera í leikskólanum.
Við byrjum svo vetrarstarfið í kringum næstu mánaðarmót, þá fer hópastarfið og Vísdómsstundirnar af stað. Eins og alltaf verður gróskumikið starf í boði fyrir börnin ykkar og við hlökkum til að vinna með þeim, styðja þau í því sem þau hafa áhuga fyrir að gera og leiðbeina þeim í gegnum skólastarfið.
Þar til næst

Sólveig Einarsdótti
leikskólastjóri