Kæru foreldrar

Börnin ykkar eru yndisleg eins og alltaf. Þau eru dugleg að leika og sum hver eru farin að mynda vinatengsl. Á morgnana opnar Guðrún Erna smiðjuna svo börnin á Töfrasteini geta komið þangað inn strax og þau eru búin að borða morgunverðinn og teiknað, litað eða málað. Lang flestum börnum finnst gaman að vinna verkefni í smiðjunni, en það eru þó einstaka börn sem vilja ekki nálgast málningu eða annað sem í boði er þar, þeim finnst þá málningin ekki góð viðkomu svo ég tali nú ekki um límið sem loðir við fingur manns og maður ræður ekki neitt við neitt.
Dúkkur og búleikur er vinsæll á öllum deildum skólans, börnunum finnst svo gaman að búa um dúkkurnar, klæða þær úr og í, gefa þeim að borða, halda afmæli fyrir þær og margt, margt fleyra. Þegar börnin eru í búleik er mjög gaman að heyra samskipti þeirra á milli. Þau senda hvert annað hingað og þangað eftir því í hvaða hlutverki þau eru. „Já elskan mín ég skal hjálpa þér, eða, já elskan ég fer í búðina svo kem ég“. Þetta heyrir maður mjög oft í leiknum í búinu.
Kubbaleikir eru líka vinsælir, hreyfileikir og að pussla, perla og skoða bækur. Börnin eru langflest algjörir bókaormar og finnst gaman að láta lesa fyrir sig enda fá börnin samverustund tvisvar á dag í leikskólanum fyrir utan söngstundirnar. Sagnalestur og söngur eru svo sannarlega málörvandi og ég tala nú ekki um þegar þið foreldrar eruð að lesa á kvöldin fyrir börnin ykkar þá getum við í sameiningu, leikskólinn og heimilið lyft Grettistaki í máltöku barnanna.
En eins og ég sagði þá er líf og fjör í leikskólanum og þessa stundina eru mörg börn úti að leika í góða veðrinu, þau spjalla saman, hlaupa saman um garðinn, moka saman í sandkassanum, skrækja og skríkja, róla saman og njóta sín í botn.
Þar til næst
Sólveig